Mælaborð um farsæld barna
Gagnvirkt mælaborð sem skilgreinir fimm grunnstoðir farsældar
Mælaborð um farsæld barna hefur verið í þróun frá því að hafist var handa við að móta löggjöf um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna árið 2019. Að þróun og mótun mælaborðsins hefur komið fjöldi hagaðila, innlendir og erlendir sérfræðingar, ásamt því að haft var samráð við almenning, börn og ungmenni hér á landi. Einnig var verkefnið unnið í þverfaglegu samráði innan Stjórnarráðsins og við félagasamtök og stofnanir sem koma að málefnum barna.

Aðalmarkmið mælaborðsins er að draga fram heildstæða mynd af farsæld barna hér á landi, á grundvelli þeirra fjölþættu tölfræði­gagna sem til staðar eru, hjá ríki og sveitar­félögum. Með mælaborðinu er horft til þess að safna tölfræðigögnum um ólík málefni og hópa barna og tryggja að stjórnvöld hafi yfirlit yfir þætti er varða farsæld barna hér á landi, yfirlit sem byggir á nýlegum og aðgengi­legum gögnum. Er þar ekki síst horft til þess að draga fram stöðu viðkvæmra hópa barna og tryggja að stjórnvöld hafi aðgang að upp­lýsingum er varpa ljósi á stöðu og þarfir þessara hópa. Markmið mælaborðsins er enn fremur að tryggja að þau tölfræðigögn sem til eru séu nýtt með markvissum hætti við laga­setningu, stefnumótun og mat á áhrifum aðgerða opinberra aðila, ríkis og sveitar­félaga.

Mælaborðið skilgreinir fimm grunnstoðir farsældar, sem mynda víddir mælaborðsins. Hver og ein vídd samanstendur af tveimur til fjórum undirvíddum er varpa betur ljósi á einstaka þætti hennar. Samkvæmt mælaborðinu eru grunnþættir farsældar heilsa og vellíðan, öryggi og vernd, lífsgæði og félagsleg staða, þátttaka og félagsleg tengsl og menntun. Hver og ein vídd saman­stendur af um 20 mælingum sem birtar eru í vísitölu hverrar víddar fyrir sig. Unnið verður áfram að þróun mælaborðsins í nánu sam­starfi við farsældarsamfélagið allt.