Tengiliður
Tengiliður skal vera aðgengilegur öllum börnum og foreldrum og hefur hann viðeigandi þekkingu til að vera innan handar og aðstoða við að sækja viðeigandi þjónustu við hæfi. Þannig geta foreldrar og börn leitað til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir allt þjónustukerfið.
Öll börn og foreldrar skulu hafa aðgang að tengilið eftir því sem þörf krefur. Foreldrar og börn skulu hafa aðgang að upplýsingum um hver sé tengiliður í nær­umhverfi þeirra og skulu milligöngulaust geta leitað aðstoðar hans. Tengiliður hefur viðeigandi þekkingu til að geta verið foreldrum og barni innan handar. Hann ráðleggur þeim og aðstoðar við að rata í gegnum kerfið og sækja þjónustu við hæfi. Tengiliður er starfs­maður mismunandi þjónustuveitenda eftir æviskeiðum barns. 

Á meðgöngu og á ungbarnaskeiði er tengi­liður barns starfsmaður heilsugæslu, t.d. ljósmóðir eða hjúkrunar­fræðingur í ung­barna­vernd. Þegar barn hefur leikskóla­göngu er tengi­liðurinn í leikskóla barnsins, t.d. deildar­stjóri eða sérkennslu­stjóri. Þegar barn hefur grunn­skóla­göngu er tengiliðurinn starfs­maður grunn­skólans, t.d. námsráðgjafi, deildarstjóri, þroska­þjálfi eða annar starfsmaður í nær­umhverfi barnsins. Ungmenni í fram­halds­skólum hafa aðgang að tengilið innan framhaldsskólans, t.d. náms­ráðgjafa. Ungmenni sem ekki fara í framhalds­skóla eða börn sem á einhvern hátt falla á milli ofan­greindra þjónustukerfa hafa aðgang að tengilið hjá félags­þjónustu sveitar­félags. 

Tengiliður metur hvort þörf sé á sam­þættingu þjónustu. Þegar beiðni um sam­þættingu liggur fyrir getur tengiliður hafist handa við að samþætta þjónustu í þágu farsældar barns. Hlutverk tengiliðar er meðal annars að meta þjónustu­þörf, skipuleggja og fylgja eftir þjónustu á fyrsta stigi. Þá kemur tengi­liður upplýsingum til sveitar­félags ef þörf þykir á tilnefningu málstjóra. Einnig getur hann tekið þátt í vinnu stuðningsteymis eftir því sem við á.

Hann hefur ávallt hagsmuni barnsins að leiðarljósi og rækir hlutverk sitt í samráði við foreldra og barn. Þannig geta foreldrar og börn leitað til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir þjónustu­kerfið í stað þess að þurfa að fara á marga staði til að leita að slíkum upplýsingum. Barna- og fjölskyldustofa veitir ráðgjöf og fræðslu til tengiliða til þess að þeir geti sinnt hlutverki sínu sem best.